Flýtilyklar
Ástarsögur
Ný móðir
Lýsing
Þegar ofnklukkan hringdi þaut Rosemary fram í eldhús á
ógnarhraða. Hún hafði keypt heilmikið af tækjum í gamla
KacKinnon-bústaðinn á síðustu sex mánuðum en ekki haft efni
á nýrri eldavél. Hitastillirinn á ofninum gat verið harla dyntóttur.
Sem betur fer hegðaði gamla skriflið sér vel í þetta sinn.
Hún þreif pottalepp og dró út bakka með rjómabollum, fagursköpuðum
og gullinbrúnum. Þær voru fullkomnar.
Meðan bollurnar kólnuðu fór hún út að sækja eldivið.
Vindurinn nísti hana í andlitið en Rosemary hrósaði engu að
síður happi þar eð kominn var 19. desember og á Hvíslfjalli
gátu geisað hríðarbyljir og stormar á þessum árstíma. Svolítill
vindur var ekkert til að gera veður út af.
Þegar hún kom inn kraup hún við risavaxinn arininn. Það
snarkaði í kolunum í eldstæðinu og hún þurfti aðeins að bæta
nokkrum drumbum á eldinn og róta aðeins í kolunum. Innan
skamms logaði glatt í arninum svo að hlýtt varð í herberginu.
Hún stóð upp, teygði úr sér og strauk rykið af höndum sér.