Sophie hafði komist að þeirri niðurstöðu að til væru þrenns konar karlmenn. Fyrsta afbrigðið þekkti hún mætavel. Þeir menn sögðust elska konuna, fullyrtu að hún væri miðdepill alheims þeirra og ætti hjarta þeirra óskipt, en yfirgáfu hana síðan vegna þess að hún var orðin „flókin“ eða „krefjandi“. Í næsta hópi voru indælu drengirnir. Þeir voru fáir og strjálir. Reyndar var hún ekki viss um að þeir væru til þegar öllu var á botninn hvolft. Hún hafði aldrei hitt slíkan mann. Hins vegar hafði hún heyrt vinkonur sínar tala um þá. Þetta voru strákarnir í húsinu á móti sem virtust ekki vera neitt sérstakir við fyrstu sýn en voru síðan klófestir af heppnari keppinautum áður en konan gerði sér grein fyrir því að hamingjan hafði verið beint fyrir framan nefið á henni allan tímann. Svo var það þriðja afbrigðið. Í þeim hópi voru menn sem gjarnan létu mynda sig sem hálfnakta brunaverði og voru gefnir út á dagatölum. Þeir héldu á litlum, sætum hvolpum á meðan þeir sýndu olíuborna vöðvana á sér. Allir voru þeir með festulega höku. þriggja daga skegg, mjallhvítar tennur og ómældan kynþokka. Einn af þessum náungum gekk inn í sjúkrabílageymsluna til hennar einmitt núna. –Allamalla, muldraði hún og reyndi að hætta að góna á manninn og þykjast vera að athuga búnaðinn í afturhluta sjúkrabílsins. Stundum gægðist hún þó yfir þakið til að ganga úr skugga um að maðurinn væri raunverulegur en ekki ofskynjun
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Hæ, þú. Jæja, hérna er hún. Mín hinsta ósk. Mér þykir leitt að biðja þig um að gera þetta, en ég hef virkilega engan annan. Þú ert sú eina sem ég treysti og þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig. Ég verð að biðja þig um þetta. Í þetta sinn er það fyrir Tori og þá getur þú ekki sagt nei! Ég sagði föður hennar aldrei neitt. Þú veist af hverju, og að það var hið rétta að gera á þeim tíma, en þegar ég nálgast brottfarastundina get ég ekki annað en hugsað um elsku litlu stúlkuna mína, sem á engan ættingja í öllum heiminum. Ég hef verið þar. Ég hef upplifað það. Og það er einmanalegur staður að vera á. Hún mun eiga þig að, guðmóður sína, en... hún á föður þarna úti og hann gæti verið stórkostlegur! Ég legg þetta því á þig. Finndu hann. Hann heitir Cole Branagh og er læknir. Heimilislæknir. Ef hann er læknir hlýtur honum að vera annt um fólk, ekki rétt? Ég vona að hann hafi gott hjartalag. Ég vona að hann geti verið allt sem hún þarfnast. Ég vil að þú finnir hann, og ef þú heldur að hann sé góður maður láttu hann þá vita af Tori. Ég þarfnast þess að þú finnir pabba hennar. Ég veit að þú munt taka réttar ákvarðanir. Kærar ástarkveðjur til þín, alltaf og að eilífu, Skye xxx
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
–En það hljóta að vera aðrar stöður sem þú getur sótt um. Einhvers staðar lengra í burtu, eins og Glencoe eða Fort William? Kannski. En núna bjuggu þær hérna. Í Gilloch. Og hún vildi ekki vera svo fjarri ættingjum sínum. Ekki lengur. Grace stækkaði ört og hún vildi ekki að amma hennar missti af uppvexti hennar. Það var einfaldlega ekki í boði að eyða mörgum tímum í að ferðast á milli staða á degi hverjum. Það hafði verið dásamlegt að búa í Cornwall, en það var liðin tíð. Hún hafði snúið aftur heim þremur árum eftir að Ashley lést. Aftur á heimaslóðir. Og það hafði verið rétt ákvörðun, að koma heim. –Þetta starf, hérna í þorpinu, það er þvílíkur happafengur! Ég á eftir að geta farið heim hvenær sem ég þarf. Til dæmis ef neyðartilvik kæmi upp. Ósjálfrátt fann hún enn einu sinni fyrir sektarkennd þegar hún hugsaði til þess þegar Ashley lést. Vikum saman hafði hún setið við rúmstokkinn og haldið honum félagsskap, haldið í höndina á honum, lesið fyrir hann, þangað til að dag einn sem hún var kölluð til vinnu. Neyðartilvik hafði komið upp þegar lest hafði farið út af sporunum og það hafði vantað mannskap. Og Ashley hafði dáið einn. Hún hafði fengið símtalið í vinnunni, frá nágranna sem var með lykil og hafði lofað að líta til með honum. Henni hafði ekki tekist að komast heim í tæka tíð, hafði verið föst í endalausum umferðarhnútum, tafin af umferðarljósum og ökumönnum sem virtust ekki vita hvaða fótstig var bensíngjöf. Hana hafði bara langað að komast til baka til Grace, sækja hana úr barnagæslu og halda henni þétt upp að sér áður en hún
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Sydney Harper staðfesti upplýsingarnar um sig á snertiskjánum við dyr læknastofunnar og gekk inn á biðstofuna. Hún var full. Næstum troðfull. Ellefu stólar af tólf voru uppteknir og hún kannaðist við öll andlitin. Þetta fólk sá hún á hverjum degi í þorpinu. Nokkrir höfðu komið til hennar á dýralæknastofuna sem hún rak. Voru þau öll á undan henni? Þurfti hún að bíða fram að hádegi til að hitta Preston lækni? Hún var sjálf með sjúklinga sem biðu, enda var þetta annasamur árstími. Það voru að koma jól. Sjálfsagt vildu allir hitta lækninn sinn áður en hátíðahöldin byrjuðu. Hún stundi þungan, arkaði inn og leitaði í töskunni sinni að bókinni sem hún hafði ævinlega meðferðis þegar svona stóð á. Hún settist á auða stólinn, opnaði bókina og stakk bókamerkinu milli fingra sér. Hún reyndi að einbeita sér að orðunum á síðunni, en hún var þreytt í augunum og las sömu málsgreinina æ ofan í æ. Orðin neituðu að síast inn í höfuðið á henni og fá merkingu. Þetta var engin ný bóla. Á hverju ári þegar dagsetningin nálgaðist gerði líkami hennar uppreisn og hún gat ekki sofið. Dagsetningin myndi vofa yfir henni um alla framtíð ásamt óttanum við að þurfa að komast í gegnum jólin enn á ný, endurupplifa liðna atburði og finnast þeir hafa gerst í gær. Áfallið. Hræðsluna. Samviskubitið.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók